+354 551-8156 mmk@krfi.is

Skipulagsskrá fyrir Menningar- og minningarsjóð kvenna

1. gr.
Nafn sjóðsins er Menningar- og minningarsjóður kvenna.

Heimili sjóðsins er að Túngötu 14 í Reykjavík

2. gr.
Stofnandi sjóðsins er frú Bríet Bjarnhéðinsdóttir.

3. gr.
Stofnfé sjóðsins er dánargjöf frú Bríetar, að upphæð kr. 2.000,00, sem afhent var af börnum hennar á 85 ára afmæli hennar 27. september 1941, og telst sá dagur stofndagur sjóðsins.

4. gr.
Tilgangur sjóðsins er að vinna að mennta- og menningarmálum kvenna:

  1. með því að styðja konur til framhaldsmenntunar hérlendar og erlendar, m.a með náms- og ferðastyrkjum. Einnig með því að styðja konur til náms á framhaldsskólastigi t.d styttra náms til starfsréttinda.
  2. með því að styðja konur til framhaldsrannsókna, að loknu námi, og til náms og ferðalaga til undirbúnings þjóðfélagslegum störfum, svo og til sérnáms í ýmsum greinum.
  3. með því að veita konum styrk til ritstarfa eða verðlauna ritgerðir, einkum um þjóðfélagsmál er varða áhugamál kvenna.

Komi þeir tímar, að konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu vinnu og sömu aðstæður til menntunar, efnalega, lagalega og samkvæmt almenningsáliti, þá skulu bæði kynin hafa jafnan rétt til styrkveitinga úr sjóði þessum.

5. gr.
Tekjur sjóðsins eru:

Dánar- og minningarsjafir, áheit og aðrar gjafir, tekjur af ýmissi starfsemi í þágu sjóðsins og  vextir.

6. gr.
Heimilt er að verja vaxtatekjum og verðbótum til styrkveitinga og reksturs sjóðsins

7. gr.
Sjóðnum fylgir sérstök bók, og skal, ef óskað er, geyma í henni nöfn, myndir og helstu æviatriði þeirra, sem minnist er með menningar- og dánargjöfum.

Æviminningar þeirra og handrit, bréf eða ritverk, sem eftir þær (eða þá) liggja, lætur sjóðstjórinn geyma, ef óskað er, á tryggum stað, t.d. í handritasafni Landbókasafnsins. Minningabókin skal geymd á sama stað.

8. gr.
Höfuðstól sjóðsins má aldrei skerða. Skal hann geymdur í tryggum verðbréfum eða á annan hátt, er fullnægir fyrirmælum laga um örugga varðveislu og ávöxtun opinberra sjóða.

9. gr.
Styrkveitingar úr sjóðnum skulu fara fram einu sinni á ári. Stjórn sjóðsins ákveður umsóknarfrest og úthlutunardag styrkja..

10. gr.
Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm konum og fimm til vara, sem kosnar eru þannig, að tvær eru kosnar í aðalstjórn og tvær í varastjórn á landsfundi Kvenréttindafélags Íslands, og tvær í aðalstjórn og tvær í varastjórn á aðalfundi Kvenréttindafélags Íslands í Reykjavík mitt á milli landsfunda.  Stjórn KRFÍ skipar eina konu í aðalstjórn og eina til vara úr sínum hópi eftir hvern aðalfund.  Stjórnarkonur skulu vera félagar í KRFÍ.  Ef KRFÍ leggst niður, án þess að annar félagsskapur komi í þess stað, er sjóðurinn sé falinn, er þess óskað að stjórn sjóðsins sé kosin af sameinuðu Alþingi.  Stjórnin skal þó ávallt vera skipuð konum.

11. gr.
Stjórn sjóðsins ber að halda gerðabók fyrir sjóðinn, færa í hana skipulagsskrána, fundar-samþykktir, umsóknir um styrk úr sjóðnum, styrkveitingar og annað, sem varðar hag og rekstur sjóðsins, tekjur og gjöld og færa í hana ársreikninga sjóðsins.

Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir á sama hátt og aðrir reikningar Kvenréttindafélags Íslands.

12. gr.
Leita skal staðfestingar forseta Íslands á  skipulagsskrá þessari og skal hún birt í B-deild Stjórnartíðinda.

13. gr.
Með skipulagsskrá þessari er felld úr gildi skipulagsskrá fyrir Menningar- og minningarsjóð kvenna nr. 107 frá 23. júní 1971.

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

Skráið ykkur á póstlista MMK